Skip to content

Vegvísir um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025

Öflug endurreisn íslensks efnahagslífs eftir kórónuveirufaraldurinn veltur á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Sú staðreynd kemur m.a. skýrt fram í Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar  fyrir 2022-2026.

Það hvernig rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni ferðaþjónustu verður háttað á endurreisnartímabilinu næstu fjögur ár mun því skipta höfuðmáli varðandi það hversu hratt verðmætasköpun ferðaþjónustu fyrir samfélagið getur vaxið.

Til að styðja við öfluga endurreisn hafa Samtök ferðaþjónustunnar gefið út Vegvísi um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025. Í vegvísinum eru dregnar saman mikilvægar áherslur um starfsumhverfi atvinnugreinarinnar og tillögur að aðgerðum stjórnvalda sem eru nauðsynlegar til að flýta viðspyrnu hennar, styðja við endurreisn efnahagslífs og takmarka neikvæð og langvarandi samfélagsleg áhrif faraldursins. 

Í tengslum við vegvísinn hefur SAF birt árangursmælaborð þar sem ýmis mælanleg markmið sem tengjast viðspyrnunni og framtíðarsýn ferðaþjónustunnar eru sett fram til ársins 2025.

Viðspyrnan helst í hendur við framgang markmiða stefnuramma um ferðaþjónustu til 2030 

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu – stefnurammi til 2030, var mótuð í samvinnu Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnvalda haustið 2019. Yfirmarkmið stefnurammans eru að Íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun, hún sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein sem starfi í sátt við land og þjóð. Þá skuli stefnt að því að ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að hún sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun. 

Viðspyrnan veltur á ákvörðunum stjórnvalda um starfsumhverfi ferðaþjónustu

Þann 25. september 2021 fara fram kosningar til Alþingis. Þá hefst nýtt kjörtímabil sem rammar inn þau fjögur ár þar sem mestu skiptir að ferðaþjónusta nái hröðum vexti á ný til að styðja við efnahagslega endurreisn samfélagsins. Kjörtimabilið nær einnig yfir helming tímans sem stefnuramminn tekur til. Ákvarðanir sem teknar verða af núverandi ríkisstjórn á næstu mánuðum og af nýrri ríkisstjórn strax í upphafi næsta kjörtímabils munu því hafa úrslitaáhrif á það hvort hraðri viðspyrnu og nauðsynlegri verðmætasköpun verður náð í ferðaþjónustu og efnahagslífinu í heild.

Hröð viðspyrna lágmarkar neikvæð og langvarandi samfélagsleg áhrif

Í skýrslu KPMG um þróun starfsumhverfis ferðaþjónustunnar kemur fram að eftir því sem viðspyrna ferðaþjónustu dregst á langinn eykst samfélagslegur kostnaður. Hröð viðspyrna ferðaþjónustunnar er því ekki aðeins grundvöllur nauðsynlegrar aukningar í verðmætasköpun, til að vinna upp tap sem orðið er af efnahagskreppunni, heldur einnig grundvöllur þess að komið verði í veg fyrir enn frekari samfélagslegan kostnað af völdum hennar. Leiðin til að koma í veg fyrir meiri samfélagslegan kostnað á næstu árum liggur í aðgerðum til að styðja við jákvæða þróun og hraða viðspyrnu.