VEGVÍSIR UM VIÐSPYRNU 2025
8. eFLING ATVINNUTÆKIFÆRA Á LANDSBYGGÐINNI
Stjórnvöld styðji við aukningu fjölbreyttra atvinnutækifæra og eflingu byggðar og sterkra samfélaga á landsbyggðinni með stefnumörkun, aðgerðum og jákvæðum fjárhagslegum hvötum sem styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Stefnumörkun og aðgerðir taki mið af markmiðum Framtíðarsýnar ferðaþjónustu til 2030.
Greining og úrbætur
Gerð verði greining á áhrifum atvinnusköpunar ferðaþjónustu á landsbyggðinni undanfarin 10 ár sem nýtt verði til að styðja við stefnumörkun stjórnvalda um eflingu atvinnutækifæra á kjörtímabilinu í samræmi við Framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030. Meðal annars verði teknar ákvarðanir um aðgerðir til eflingar alþjóðaflugs og/eða betri tenginga innanlandsflugs til að bæta dreifingu ferðamanna um landið.
Fjárhagslegir hvatar
Ríki og sveitarfélög sameinist um að skapa jákvæða fjárhagslega hvata fyrir fyrirtæki til að flytja eða auka starfsemi á landsbyggðinni, t.d. með tímabundinni endurgreiðslu fasteignagjalda eða stuðningi við byggingu húsnæðis fyrir starfsfólk.
Atvinnuþróun og nýsköpun
Aðgengi að fjármagni til fjárfestinga í vöruþróun, nýsköpun og fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni verði bætt og aukið. Ríkið hvetji til og komi til móts við kostnað sveitarfélaga af ráðningu atvinnuþróunarfulltrúa í fullt starf á tímabilinu 2022-2025.
Tillögur um atvinnusköpun
Bent er á tillögur í skýrslu SAF um 10 leiðir til að efla ferðaþjónustu og atvinnusköpun á landsbyggðinni.