VEGVÍSIR UM VIÐSPYRNU 2025
9. hÆFNI OG FRÆÐSLA STYÐJA VIÐ GÆÐI OG VERÐMÆTASKÖPUN
Stjórnvöld efli uppbyggingu fræðslu og menntunar í ferðaþjónustu í samræmi við markmið um hæfni, þekkingu og gæði í stefnurammanum. Samkeppnishæfni, sjálfbær þróun ferðaþjónustu og ávinningur samfélagsins af greininni byggir á að upplifun og gæði samræmist verði. Þar gegnir góð og fjölbreytt menntun með möguleikum til starfsþróunar og þrepaskipts starfsnáms lykilhlutverki.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Varanleg fjármögnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar verði tryggð á fjárlögum og m.a. gert ráð fyrir framlagi til markaðssetningar á heildstæðu námi og raunfærnimati í ferðaþjónustu.
Mótun hæfnistefnu
Mótuð verði hæfnistefna fyrir ferðaþjónustu, byggð á færnispám og þarfagreiningu. Niðurstöður verði nýttar til uppbyggingar á viðurkenndu starfsnámi.
Öflugri endurmenntun
Árlegt fjármagn til endurmenntunar verði tvöfaldað á árabilinu 2022-2025 til að viðhalda og bæta við nauðsynlega hæfni fyrir ferðaþjónustugreinar. Stuðningur við starfstengt íslenskunám fyrir erlent starfsfólk verði aukinn.
Varðveitum þekkinguna
Samstarf VMST og ferðaþjónustunnar um að fá fólk með reynslu og þekkingu aftur til starfa eftir faraldurinn verði eflt, m.a. með því að ýta undir nýtingu ráðningarstyrkja.
Nýskapandi rafræn fræðsla
Nýsköpunarstyrkir verði veittir til eflingar og gæðaþróunar rafrænnar fræðslu.