Skip to content

VEGVÍSIR UM VIÐSPYRNU 2025

6. GAGNAÖFLUN, ÚRVINNSLA OG RANNSÓKNIR

Stjórnvöld styðji við og tryggi sameiginlegan skilning á áhrifum ferðamanna á efnahag, umhverfi og samfélag  í samræmi við þá formlegu samvinnu sem fram hefur farið og fram fer innan alþjóðastofnana. Til að því takmarki verði náð þarf að tryggja til langframa vinnslu ferðaþjónustureikninga (TSA) hjá Hagstofu Íslands, sem og notkun þeirra sem grunnheimildar í áætlanagerð ríkisins, t.d. við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga.

Ferðaþjónustureikningar

Ferðaþjónustureikningar (Tourism Satellite Account) verði skilgreindir sem eitt af lögbundnum verkefnum Hagstofu Íslands, sbr. 1. og 2. gr. laga 163/2007. Gert verði ráð fyrir fjárframlagi til a.m.k. tveggja stöðugilda í fjárlögum til útreiknings og úrvinnslu ferðaþjónustureikninga. Samhengi gagnaöflunar og áætlanagerðar fyrir atvinnugreinina verði bætt og fært til samræmis við aðrar atvinnugreinar.

Alþjóðlegt samanburðarhæfi

Gagnaöflun og -greining opinberra aðila um ferðaþjónustu taki mið af alþjóðlegum stöðlum svo samræmi og samanburðarhæfi sé tryggt.

Rannsóknir í ferðaþjónustu

Framlag ríkisins til rannsókna í ferðaþjónustu verði tvöfaldað og tryggt að rannsóknir séu markvissar og byggðar á aðferðafræðilega sterkum grunni.

Greining og úrbætur

Stjórnvöld leiði átak í greiningu á gagnaöflun í ferðaþjónustu (hvar og hvaða gagna er aflað, hvar og hvernig þau eru nýtt) og hún nýtt til að styrkja nýtingu gagna hjá opinberum og einkaaðilum. Sérstaklega verði horft til þess hvernig bæta megi söfnun, úrvinnslu og birtingu rauntímagagna.