VEGVÍSIR UM VIÐSPYRNU 2025
1. REKSTRARUMHVERFI FYRIRTÆKJA
Stjórnvöld geri markvissar breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja til að auka samkeppnishæfni, auðvelda fyrirtækjum að ráða starfsfólk og byggja upp stöðugan rekstur að nýju. Létt verði á íþyngjandi gjalda- og reglubyrði ferðaþjónustufyrirtækja til að styðja við atvinnusköpun. Léttari byrðar auka möguleika á hraðari viðspyrnu og vexti sem skilar samfélaginu meiri arði.
Bætt samkeppnishæfni
Gerðar verði breytingar á rekstrarumhverfi sem bæta samkeppnishæfni ferðaþjónustufyrirtækja, t.d. verði virðisaukaskattur á ferðaþjónustu lækkaður í 7% til 2024, tryggingagjald lækkað myndarlega frá ársbyrjun 2022 , heimild til álags á fasteignaskatta afnumin og reikniregla þeirra færð til samræmis við reiknireglur á Norðurlöndum.
Minni sértæk gjaldtaka
Létt verði á sértækum sköttum og gjaldtöku af ferðaþjónustugreinum með beinum aðgerðum. Þar verði m.a. horft til varanlegs afnáms gistináttaskatts, lækkunar þjónustugjalda opinberra aðila, tímabundinnar endurgreiðslu áfengisgjalds til veitingahúsa og ívilnana á gjöldum er hafa bein áhrif á rekstur fyrirtækja.
Einföldun regluverks
Gerð verði tímasett áætlun um einföldun regluverks ferðaþjónustu, sbr. t.d. samkeppnismat OECD frá 2020. Horft verði til þverlægs eðlis ferðaþjónustu í stjórnkerfinu og nauðsynlegrar þátttöku fleiri ráðuneyta. Sérstök áhersla verði lögð á stóraukna og einfaldaða rafræna stjórnsýslu, t.d. varðandi leyfisveitingar.
Inngrip Seðlabanka
Inngrip Seðlabanka í gengisþróun taki skýrt mið af hagsmunum útflutningsgreina til að styðja við aukna verðmætasköpun og hraða viðspyrnu.