Skip to content

VEGVÍSIR UM VIÐSPYRNU 2025

5. ÁRANGURSRÍKARI STJÓRNSÝSLA FERÐAMÁLA

Stjórnvöld leggi fram tímasetta áætlun um umbætur í stjórnsýslu ferðamála með það að markmiði að auka og bæta samvinnu ráðuneyta og stofnana um málefni ferðaþjónustu og einfalda og styrkja stjórnsýslu atvinnugreinarinnar. Sterk, samþætt og hnitmiðuð stjórnsýsla styður við markmið stefnumörkunar og auðveldar fyrirtækjum að vinna og vaxa.

Ráðuneyti ferðamála

Atvinnuvegaráðuneytinu verði skipt upp í ráðuneyti ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar annars vegar og ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs hins vegar. Við vinnuna verði tækifærið nýtt til að styrkja skipulag og stjórnsýslu ferðamála innan hins nýja ráðuneytis.

Öflugri Ferðamálastofa

Starfsemi Ferðamálastofu sem lykilstjórnsýslustofnunar atvinnugreinarinnar verði efld. Hlutverk og verkaskipting ráðuneytis/skrifstofu ferðamála og Ferðamálastofu verði gerð skýrari. Tengsl og samvinna Ferðamálastofu við aðrar stofnanir er snerta málefni ferðaþjónustu verði efld og samræmingarhlutverk hennar í stjórnsýslu ferðaþjónustu verði skýrt.

Ferðamálaráð

Ferðamálaráð verði skipað fulltrúum er sátu í stjórn Stjórnstöðvar ferðamála tímabundið, eða til ársloka 2022, til að tryggja samfellu í samtali atvinnugreinarinnar við stjórnvöld og stuðning við viðspyrnu á meðan áhrif farsóttar og sóttvarna vara.